Erlent

Neyðar­á­standi lýst yfir á Nýju-Kaledóníu eftir miklar ó­eirðir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Herflugvél frá Frakklandi kemur inn til lendingar á öðrum flugvellinum á Nýju-Kaledóníu.
Herflugvél frá Frakklandi kemur inn til lendingar á öðrum flugvellinum á Nýju-Kaledóníu. AP/Cedric Jacquot

Neyðarástandi var lýst yfir á Nýju-Kaledóníu í gær en hundruð franskra lögreglumanna er á leið til eyjaklasans eftir miklar óeirðir þar sem fjórir hafa látið lífið og fjöldi slasast.

Nýja-Kaledónía er sjálfstjórnarsvæði sem heyrir undir Frakkland. Óeirðirnar brutust út eftir að franska þingið samþykkti í vikunni að heimila Frökkum sem eru ekki frá Nýju-Kaledóníu en hafa búið þar í tíu ár rétt til að kjósa í héraðskosningum.

Leiðtogar á eyjunum segja lagabreytinguna munu verða til þess að grafa undan atkvæðaþunga innfæddra.

Vopnaðar sveitir standa nú vörð við báða flugvelli og höfn Nýju-Kaledóníu. Talið er að um 5.000 manns hafi tekið þátt í óeirðunum, þar af á milli þrjú og fjögur þúsund í höfuðborginni Noumeu.

Þrír innfæddir hafa látist í óeirðunum og þá var lögreglumaður skotinn til bana. 

Tvö hundruð hafa verið handteknir og 64 her- og lögreglumenn særst. 

Æðsti embættismaður Frakklands í Nýju-Kaledóníu, Louis Le Franc, segir að vegatálmar sem mótmælendur hafa komið upp hafa skapað neyðarástand þar sem matur og lyf komast ekki til íbúa. Eignir hafa verið eyðilagðar og þá hefur verið brotist inn í fjölda fyrirtækja.

Yfirlýst neyðarástand gerir staðaryfirvöldum kleift að banna fjöldasamkomur og hamla för fólks um eyjarnar. 

Le Franc hefur hvatt skipuleggjendur mótmælanna, CCAT, til að láta af aðgerðum en sakar samtökin á sama tíma um að samanstanda af þrjótum sem eigi ekkert sameiginlegt með öðrum sjálfstæðissinnum.

Ástralir hafa verið hvattir til að halda sig frá eyjunum, sem liggja um það bil 1.500 km austur af Ástralíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×